Á dögunum fengu Alexander Ólafsson ehf afhenta nýja Komatsu D375A-8 jarðýtu sem er lítil 73 tonn á þyngd, takk fyrir pent.
Eftir að búið var að standsetja vélina og koma henni í vinnu kom ekkert annað til greina en skemmtileg afhending á vélinni upp í Vatnsskarðsnámu þar sem við fengum Grillvagninn til þess að elda ofan í okkur veislumat og afhentum vélina formlega.

Alexander Ólafsson ehf var stofnað í október 1993 og var lengst af í eigu fjölskyldu Alexanders Ólafssonar en er nú í eigu Steypustöðvarinnar ehf.

Félagið er í námurekstri vestur undir Háuhnúkum við Krísuvíkurveg í námu sem kallast Vatnsskarðsnáma, en hið landfræðilega Vatnsskarð er rétt suðaustan við námuna.

Fyrirtækið sérhæfir sig í jarðefnavinnslu á steinefnum til margs konar nota m.a. hellu- og rörasandur, drenmöl, hestagerðisperlu, reiðstígaefni, steypusandur og steypumöl.

Við óskum Alexander Ólafssyni ehf til hamingju með nýju jarðýtuna og þökkum þeim kærlega fyrir að velja Komatsu í þetta krefjandi verkefni.